Karellen

Sérkennsla á Óskalandi

Sérkennsla er þjónusta sem leikskólinn veitir börnum vegna hverskyns sérþarfa er þau kunna að hafa. Þessar sérþarfir geta verið vegna fötlunar, þroska-, hegðunar- eða tilfinningalegra frávika auk sérstakra aðstæðna barnsins. Þjónustan miðast við að gera börnunum unnt að njóta sín í hópi annarra barna á eigin forsendum og styrkja þau á sem fjölbreyttastan hátt.

Sérkennslustjóri sér um að skipuleggja sérkennsluna eftir þörfum hvers einstaklings. Hefur yfirumsjón með gerð verkefna og ber ábyrgð á gerð einstaklingsnámskráa fyrir börn sem eru í teymi. Sér um að boða teymisfundi þar sem foreldrar mæta ásamt teyminu sem er í kringum viðkomandi barn og skrifar fundagerð sem er send til allra sem málið varðar. Sérkennslustjóri er í daglegum samskiptum við deildarstjóra og leikskólastjóra leikskólans til að byggja upp traust net um börnin innan leikskólans og hefur umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu.

Sérkennslustjóri Óskalands er Heiða Margrét Guðmundsdóttir og veitir hún þeim börnum sem þurfa á sérkennslu að halda sérstaka aðstoð og kennslu. Í vinnustundum er notast við spil, leik, lestur o.þ.h. og fer hún fram í sérkennsluherbergi eða inni á deildum eftir þörfum.

Iðjuþjálfun barna getur verið ýmisskonar, allt frá því að aðstoða barn við að bæta færni sína í eigin umsjá, svo sem að klæða sig, snyrta og matast, yfir í að þjálfa fínhreyfifærni, svo sem grip og handbeitingu. Þessu tengt er hægt að veita ráðgjöf varðandi þessa þætti, til starfsfólks deildar og foreldra. Iðjuþjálfar geta metið þátttöku og færni við sjálfshjálp, fín- og grófhreyfifærni og hugsanleg áhrif ódæmigerðrar skynúrvinnslu leikskólabarna á daglegt líf. Til þess að gera það er áhorfi beitt eða matstæki notuð. Markmiðið er að auka færni barns til þess að það eigi auðveldara með þátttöku í leik og daglegum viðfangsefnum skólastarfsins.

Hópastarf í umsjón iðjuþjálfa

Skólahópur: Efla félagsfærni, tengsl og jákvæð samskipti. Farið er yfir æskilega setstöðu við borðvinnu og vinnustöðu. Sjálfstraust/trú á eigin áhrifamátt verður einnig hluti af starfinu.

Fínhreyfihópur: Unnið verður með efni og æfingar sem miða að því að styrkja vöðva handarinnar til þess að bæta grip um skæri og blýanta. Langtímamarkmiðið snýr að því að hópmeðlimir nái að skrifa nafnið sitt, með æskilegu blýantsgripi.

Félagsfærnihópur: Unnið verður með jákvæð tengsl. Mikið verður unnið með spil og leiki. Sjálfstraust/trú á eigin áhrifamátt verður einnig hluti af starfinu. Kjörinn hópur til þess að æfa sig í félagslegum samskiptum á fjölbreyttan hátt!

Leikþjálfun: Miðar að því að ýta undir færni barns til þess að vera í samleik með öðrum börnum á deildinni. Þjálfunin getur farið fram inni á deild en einnig í minna rými í minni hópi.


Karen Inga Bergsdóttir talmeinafræðingur fer á milli leikskólanna og grunnskólans í Hveragerði og er í einn mánuð í senn á hverjum stað.

Hlutverk talmeinafræðinga er fyrst og fremst að sinna greiningu og veita ráðgjöf til kennara, foreldra og annarra er koma að barninu.Talmeinafræðingar halda erindi og námskeið um ýmsa þætti er varða mál og lestur. Þeir sinna talþjálfun þeirra barna sem falla undir viðmið sveitafélaga inni í skólum, sé þess kostur. Ávallt er unnið í anda hugmyndafræðinnar um snemmtæka íhlutun þar sem reynt er að átta sig á vandanum eins fljótt og mögulegt er og strax gripið inn í þannig draga megi úr og jafnvel koma í veg fyrir að frekari vandi verði. Gott samstarf talmeinafræðings, kennara og foreldra er algjört lykilatriði til að nemendur nái árangri.


verkferli sérkennslu.pdf



Skólafréttir

Viðburðir í uppsiglingu

© 2016 - 2024 Karellen