Velkomin í leikskólann Óskaland.
Leikskólinn er fjögurra deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum tólf mánaða til sex ára. Boðið er upp á breytilegan dvalartíma.
Leikskólinn Óskaland tók til starfa 22. febrúar 1994, í leiguhúsnæði við Fljótsmörk 2. Þar starfaði leikskólinn í 10 ár eða til ársins 2004. Fyrsta skóflustungan að núverandi húsnæði að Finnmörk 1 var tekin þann 6. október 2003 og húsið vígt þann 14. ágúst 2004, þá tveggja deilda leikskóli. Árið 2007 var byggt við leikskólann og bættust þá þriðja og fjórða deildin við.
Nöfn deilda eru: Birkikot, Furukot, Grenikot og Reynikot.
Í Furukoti eru nemendur á aldrinum tólf mánaða til tveggja ára. Í Birkikoti eru nemendur á aldrinum tveggja til þriggja ára. Í Greni- og Reynikoti stunda nám nemendur á aldrinum þriggja til sex ára. Tvö listakot eru í leikskólanum sem eru nýtt til hópastarfs og listsköpunar. Í miðju hússins er starfsmannaaðstaða, skrifstofa, undirbúningsherbergi kennara og eldhús. Einnig er salur fyrir hreyfistundir, tónlist og fleira.
Leikskólinn er staðsettur við Finnmörk 1 í vestanverðum Hveragerðisbæ, inn í íbúðahúsabyggð þar sem stutt er í ósnortna náttúru. Hamarinn og Kambarnir eru í göngufæri við leikskólann. Stutt er í hverasvæði sem býður upp á óþrjótandi rannsóknarefni.